Trefillinn
Áður en Unnar hljóp út vafði hann gulum trefli vandlega um hálsinn. Einum af mörgum sem móðir hans hafði prjónað í sama lit. Halla dóttir hans þreyttist ekki á að benda föður sínum á hve fáránlegt væri að hengja sig í þessu snjáða garni allan ársins hring, sama þó sólin skini. „Svo er hann á litinn eins og piss,“ sagði hún.
En þegar Unnar nálgaðist götuna myndaði trefillinn mjúkan skjöld fyrir kunnuglegum, köldum tönnum. „Bílarnir koma úr öllum áttum Unnar minn, eins og skríðandi dýr,“ hafði móðir hans sagt við gangbrautirnar. „Aldrei sleppa hendinni.“
Unnar gekk yfir svarthvíta gangbrautina. Hinum megin götunnar var plakat með mynd af seiðkonu sem Unnar veitti enga eftirtekt. Ef það hefðu fylgt leiðbeiningar með einkadótturinni. Tíu bindi um hvernig ala eigi upp börn.
Samt. Voru það ekki aðrir foreldrar sem þurftu leiðbeiningar? Þessir sem mættu aldrei á foreldrafélagsfundi og leyfðu börnum sínum að valsa um dimm húsasund og góna á drápstölvuleiki fram undir morgun.
En því traustari sem rammi Unnars var, því meira streittist dóttirin á móti. Var kærasti hennar, Andri eða hvað hann hét nú, angi af því sama? Skilaboð í formi gervitöffara með vaxtaræktarvöðva og liðandi snákahúðflúr á hálsinum.
Unnar staðnæmdist við annað rautt ljós. Bílarnir þutu hvæsandi hjá. Hvað sá Halla við þennan dreng? Var þetta eðlilegt mótþróaskeið nítján ára stúlku eða hafði Unnar óafvitandi stýrt dóttur sinni þangað sem hann óttaðist mest?
Unnar leit á rafmagnskassa. Annað plakat af sömu seiðkonu. Fleiri á næstu ljósastaurum. Undir myndinni var texti sem las: „Vandræði með unglinginn? Úlfhildur Brekkan, uppeldiskuklari.“
Hvaðan komu þessar auglýsingar? Ef það væri hægt að galdra lélega kærasta í burtu. Tengdasynir áttu að veita öryggi, ekki grafa undan því. Aldrei hefði Unnar ögrað móður sinni með uppreisnargjarnri tengdadóttur.
Unnar fann smápeningana fleyta kerlingar í leðurpyngjunni þegar hann stökk yfir síðustu götuna. Halla gerði grín að honum fyrir að burðast á milli bæjarhluta með fullan peningaskáp í vasanum. En þegar símarnir og kortin virkuðu ekki?
Halla var enn of ung. Hún hafði ekki lent í neinu stórvægilegu. En þurfti það endilega að gerast svo hún byrjaði aðeins að gæta sín?
Unnar staðnæmdist fyrir framan leiguíbúðina. Stofuljósin kveikt. Blátt mótorhjól fyrir utan. Tengdasonurinn var greinilega heima. Unnar lokaði augum. Honum fannst hann finna aftur fyrir hörðu gúmmísætinu titra í hægri hendi og köldu járninu í þeirri vinstri.
Unnar herti trefilinn. Hlýtt og ljóst handverkið, prjónað konu eftir konu í gegnum aldirnar til að vernda börnin fyrir bítandi frosti, lagðist þétt upp að sláandi hálsæðunum.
Einn hring um hverfið áður en hann myndi banka. Kannski hyrfi mótorhjólið á meðan fyrir tilstilli töfra. Hókus, pókus, fílí-láttu þig hverfa úr lífi dóttur minnar.
En þegar Unnar gekk fyrir horn feykti miskunnarlaus vindur trosnandi prjónaskapnum upp í loftið. Þvaglitaður trefillinn tókst á loft og bylgjaðist í loftinu. Unnar hljóp á eftir og óskaði sér að allt þetta rugl myndi hætta.
Nístandi kuldi aftan á hálsinum. „Ertu að leita að þessum?“ spurði hvítklædd kona með agnarlítil augu og enn minna nef, sú sama og á auglýsingunum.
„Hvað ef tengdabarnið er ekki raunverulega vandamálið?“ bætti hún við. Unnar kom ekki upp orði. Var þetta sölutrix sem hún notaði á alla eða las hún í alvörunni hugsanir? Tengdabarn... Snjallt. Hún gætti sín á að nota hlutlaust orð.
„Ahh... Ég sé að þessi trefill er mikilvægur. Hvað ef hann fengi rödd? Hlýja, styðjandi nærveru, sem enginn heyrir nema þú?“ sagði seiðkonan.
Unnar virti konuna fyrir sér. Augun og nefið voru svo pínulítil að skakkur munnurinn líktist risastórum, botnlausum pytti. Hafði ósk Unnars ræst eða gerði örvæntingin hann ginnkeyptan fyrir einföldum töfralausnum?
Kuldinn gróf sig inn í herðarnar eins og agnarlitlar skrúfur í frosinn trjádrumb. „Geturðu þá látið hann hvísla svona uppeldisráð?“ spurði Unnar. Seiðkonan brosti.
Unnar valdi því næst mjúka kvenrödd úr hljóðdæmum sem seiðkonan lék fyrir hann af eldgömlu segulbandi. Væri þetta eintómt bull var þetta þó metnaðarfyllsta bull sem hann hafði séð. Unnar hitnaði í framan.
„Geturðu líka gert hana, hvernig á ég að orða það... svolítið svona... þokkafulla? Með svona þykkt, krullað hár og líka þú veist... eða sko í la-laginu eins og, eða þú veist...“ byrjaði hann.
„Heyrðu góði, ég rek ekki þannig þjónustu,“ svaraði seiðkonan og hvessti pínulitlu augun. Síðan frussaði hún úr hlátri svo gljáandi, klofinn úfur rykktist til og frá yfir ólgandi kokinu.
Unnar mátti ekki blikka auga þegar hún blés í langa og mjóa flautu. Trefillinn hitnaði og hristist á hálsinum við djúpan tón. Síðan fylgdu háir og hraðir tónar og trefilinn tókst mjúklega á loft. Þetta virkaði! Eða?
„Nú þarftu að vera alveg kyrr, allt í lagi?“ varaði seiðkonan við. En þegar laus þráður úr treflinum straukst við nefið á Unnari hnerraði hann á sama augnabliki og seiðkonan blés ákafan lokatóninn.
Fyrst varð allt svart. Síðan var Unnar allt í einu staddur fyrir utan leiguíbúð dóttur sinnar. Trefilinn var horfinn, en samt var enginn kuldi á hálsinum. Aðeins smávægileg þyngd á hægri öxl, næstum eins og.. gler?
Unnar leit varlega til hliðar. Agnarlítil mannvera horfði til baka úr lítilli, opinni krukku. Þetta var snyrtilega klæddur maður með há kollvik og óvenjulega máttugt yfirvaraskegg sem hringaðist yfir báðar kinnar eins og öldur í stormi.
„Hinir veikburða kjósa að kafna í öryggi fortíðarinnar frekar en að horfast í augu við kulda lífsins.“ Maðurinn talaði á þýsku, sem Unnar skildi einhverra hluta vegna allt í einu. Látbragðið var ákveðið en gamaldags.
Hvar hafði Unnar séð þennan mann áður? Augun voru djúp en brunnu af næstum óþægilegri ákefð. Áttu þetta ekki að heita hlý og hughreystandi ráð? Þetta hafði greinilega mislukkast við hnerrann. Hann kíkti í veskið, allir seðlarnir voru horfnir.
Unnar gekk burt frá íbúð dóttur sinnar, í áttina sem seiðkonan hafði birst. Bölvaður svikahrappurinn. Að hann skuli hafa fallið fyrir...
„Heigull!“ hrópaði litli maðurinn.
„Hmpf... þú ert ekki einu sinni raunverulegur,“ tautaði Unnar og hraðaði skrefum.
„Raunverulegur? Eins og úldinn trefill sem móðir þín prjónaði?“ spurði maðurinn hortuglega.
„Rugl... Það þurfa allir leiðsögn,“ svaraði Unnar.
„Meinarðu þá leiðsögn sem þú vilt heyra?“ sagði maðurinn í krukkunni með starandi augnaráði.
Unnar reyndi að ýta krukkunni af öxlinni en hún var blýföst við hann.
„Heyrðu þú þarna, hver sem þú ert. Ég þarf bara einhvern til að segja mér að hafa ekki áhyggjur. Að ég sé á réttri leið með þetta allt.“
„Með því að labba í burtu frá heimili dóttur þinnar? Af því þú sást hjól kærastans fyrir utan? Hver var það aftur sem kenndi þessari stelpu að hjóla? Heigullinn sjálfur?“
Unnar fann hita vefjast um brjóstholið. Hart gúmmí í hægri hendi, kalt járn rauða barnahjólsins í þeirri vinstri. Hún mátti ekki detta.
Unnar sneri við og bankaði á dyrnar. Fyrst heyrðust raddir, síðan tók við þögn. Andri tengdasonur opnaði dyrnar, ber að ofan og greinilega nývaknaður þó klukkan væri orðin eitt.
„Blessaður, vinur.“
Vinur? Unnar reyndi að leyna ógeðiskenndinni. Hvern var tengdasonurinn að kalla vin? Unnar reyndi að horfa hvorki á snákahúðflúrið á hálsinum né að telja línurnar á skornum kviðnum.
„Hæ, hæ, má ég koma inn?“ sagði Unnar og laumaðist til að þefa eftir vímuefnum af honum og íbúðinni til skiptis. Bara einn hjálmur. Keyrði hann ekki um með Höllu aftan á hjólinu?
Maðurinn á öxlinni spratt upp: „Nei! Ekki biðja um leyfi í þínu eigin lífi! Segðu hvað þú vilt!“ Orðin bergmáluðu innan úr krukkunni svo lítil sprunga myndaðist á botni hennar.
Unnar rétti úr sér. „Ég er kominn til að tala við dóttur mína. Farðu í skyrtu, drengur.“
Andri glotti, steig til hliðar og fór að vefja sér tóbak.
„Pabbi? Hvað er í gangi?“ Rödd dóttur hans innan af klósetti. Hljóð í rennandi vatni. Var hún að fela eitthvað?
„Halla mín,“ sagði Unnar í gegnum baðherbergishurðina. „Ég er hræddur um þig.“
Þögn.
„Sauðir skíta í sama gras og þeir éta,“ hló karlinn í krukkunni. Sprungan á botninum dreifði úr sér með fíngerðum litlum nálum sem stungu sér upp þunna glerveggina.
„Þetta er ekki að hjálpa,“ urraði Unnar yfir öxlina.
Andri hristi höfuðið og stakk tóbakinu undir vörina: „Rólegur, þetta er bara munntóbak. Það er ekki eins og ég sé að taka spítt hérna.“
„Þú ert ekki bara hræddur um dóttur þína,“ heyrðist í fyrirlitlegum tón innan úr titrandi krukkunni. „Þú ert hræddur við að stíga af þessum litla, snjáða bletti sem þú kallar hreiður. En veistu hvað?“
„Hvað?“ spurði Unnar.
„Hvað hvað?“ spurði Andri.
Karlinn í krukkunni fékk sér sæti á sprungunni og sagði rólegar en áður: „Þó snákurinn nái ekki ungum hegrans, svelta þeir ef enginn skreppur á eftir æti.“
Unnar leit á hlykkjótt húðflúr Andra og fannst um stund allur tengdasonurinn hlykkjast um í dáleiðandi, gljáandi hreistri.
Hann svimaði, settist á trékoll og endurtók í hálfu hljóði: „Snákurinn nær ekki ungunum. Snákurinn nær ekki ungunum.“
„Djúpt... En snákar þurfa samt að borða,“ hló Andri og opnaði hvæsandi Pepsidós svo tengdafaðirinn hrökk við.
Vatnið hætti að renna inni á baði. Dyrnar opnuðust.
Halla horfði spyrjandi á föður sinn og kærastann til skiptis. Hárið svart og blautt.
„Bíddu pabbi, trefillinn... Hvar er trefillinn þínn?“ spurði Halla.
„Manstu þegar ég kenndi þér að hjóla?“ spurði Unnar.
„Hjóla?“ spurði Halla.
„Já. Ég gat ekki sleppt hnakknum, því ég vissi að þú myndir detta,“ sagði Unnar.
„Heppin,“ sagði Andri. „Pabbi minn hélt aldrei.“
„Pabbi, hvað ætlarðu að gera þetta lengi? Þú veður hérna inn og... Það er allt í lagi hérna sko.“ Rödd Höllu sveiflaðist á milli samúðar og pirrings. Hún vafði handklæði um drjúpandi hárið.
Karlinn í krukkunni spenntist upp. Úfið yfirvaraskeggið skall hamslaust á skörpum andlitsdráttunum. Hann hækkaði róminn með hverju orði, uns orðin loguðu:
„Núna, Unnar, núna! Rístu upp núna... eða endurtaktu sömu úrkynjuðu þvæluna aftur og aftur til eilífðarnóns!“
„Halla,“ sagði Unnar. „Ég hélt svo fast í hjólið að þú dast þegar ég hafði ekki undan hraðanum. En síðan fattaði ég. Ég var ekki að halda fyrir þig, heldur mig.
„Pabbi....“ sagði Halla.
„Ég sleppti. Þú dast. Byrjaðir aftur. Dast. Ég fann höggin sjálfur. En á leiðinni heim hjólaðir þú á undan mér. Alla leiðina heim,“ sagði Unnar.
„Pabbi, hvað er þetta? Varstu að drekka? Hvar manstu eftir að hafa séð trefilinn síðast?“ Halla fletti upp númeri móður sinnar í farsímanum en fingurnir skoppuðu bara á skjánum.
„Eini trefillinn sem ég þarf er sá sem þú vefur um þig,“ sagði Unnar.
„Það fást treflar hérna í Hagkaup,“ sagði Andri.
„Ég fer núna,“ sagði Unnar og fann hvernig hendurnar slöknuðu.
Dyrnar lokuðust. Andri ranghvolfdi augum. Halla hringdi áhyggjufull í móður sína.
Unnar staðnæmdist við mótorhjól tengdasonarins. Hann snerti hnakkan og stýrið. Gamalkunnur kuldi vafðist um hálsinn. Umferðin virtist æða áfram í bakgrunni.
„Flott. Nú heldur hún að ég sé orðinn klikkaður,“ sagði Unnar yfir molnandi krukkuna.
„Velkominn í hópinn. 150 ár og fólk heldur mig enn klikkaðan,“ heyrðist úr krukkunni.
Síðan starði litli maðurinn beint á Unnar: „En hún á ekki að skilja þig, heldur sjálfa sig.“
Maðurinn stökk upp úr brotunum og setti upp lítil, kringlótt gleraugu:
„Ungt fólk hlustar á þá sem eru ekki á flótta... líka þegar heimurinn er kaldur og hvæsandi.“
Maðurinn sneri upp á yfirvaraskeggið og leystist síðan hljóðlaust upp í gul og hreistruð form sem vöfðu sér í andartak um háls Unnars og runnu því næst niður göturnar eins og óteljandi hamslaus skriðdýr.
Unnar dustaði ósýnilegt ryk af öxlinni. Hann leit í kringum sig. Plakötin af spákonunni voru horfin af veggjum og staurum. Eftir sátu aðeins þrír daufir punktar og stór, bogin lína í laginu eins og skakkur, brosandi munnur.
Á leiðinni heim fannst Unnari lítið, rautt hjól hverfa á bak við hvert horn. Þó hljóðin í umferðinni væru há og hvell, beit kaldur gusturinn hann ekki lengur.
 



